Árið 2015 var sannarlega ár samfélagsmiðlabyltinganna þar sem unga fólkið ákvað að taka málin í sínar hendur og notfæra sér mátt hinna ýmsu samfélagsmiðla til að taka niður þau félagslegu og veraldlegu kerfi sem við höfum skapað okkur. Ein þessara byltinga var undir myllumerkinu #égerekkitabú og átti sú bylting að stuðla að vitundarvakningu íslensk samfélags í garð geðsjúkdóma og andlegra kvilla. En hvers vegna er slík bylting mikilvæg fyrir samfélagið?

Við lifum á tímum tækninnar og gríðarlegs upplýsingaflæðis. Við erum beintengd við vini okkar allan daginn, við ókunnugt fólk jafnvel, fréttamiðla, auglýsingastofur og allskonar aðra aðila sem þarfnast athygli okkar. Enn fremur lifum við á frekar sjálfselskum tímum, þar sem allt snýst um útlitið, sjálfsmyndina sem við sköpum okkur á netheimum, fésbókarstatusa og girnilegar matarmyndir. Hvers vegna hefur það þá ekki ennþá gerst, bæði með opinni umræðu og auknu upplýsingaflæði, að fordómar í garð geðsjúkra heyra sögunni til?

Það er ótrúlegt að hversu ötullega við keppumst við að setja inn sjálfur, ræktarmyndir, matarmyndir og myndir af öllu því gleðilega og góða sem gerist í okkar lífi, til að skapa þetta fullkomna samfélagslega sjálf. Við eyðum tímunum saman í að velja réttu myndirnar, litina, orðin sem fylgja, lögin og statusana til þess að skapa þessa glansmynd sem birtist af okkur á samfélagsmiðlum. Hvað gerist svo þegar lífið er ekki jafn frábært og Facebook gefur til kynna? Hvað gerist svo þegar myrkrið tekur völdin og hamingjan heyrir sögunni til? Hvers vegna hættum við þá að tjá okkur á miðlunum sem eiga best að tákna okkur sjálf?

Þetta á ekki aðeins við samfélagsmiðla, þetta eru ákveðnir fordómar sem seytla um allt samfélagið og verða samofnir því. Þetta eru jú fordómar, því geðsjúkir hafa öldum saman verið sveipaðir einhverjum dularfullum hjúp brjálæðiskasta, froðufellinga og ýkjusagna. Fordómar, alveg sama að hverju þeir snúa, eru aldrei neitt annað en fáfræði. Manneskjan, svo lengi sem hún lifir, er nánast forrituð til að fordæma það sem hún ekki þekkir. Fordómar í garð geðsjúkra eru af öllum toga og nærast á fáfræðinni. Fordómarnir verða til þess að erfiðara verður fyrir geðsjúklinga að leita sér hjálpar vegna ótta við að vera dæmdir af samfélaginu í kringum sig. Fólk óttast að vera kallað öllum illum nöfnum, óttast að liti verði öðruvísi á það, að komið verði öðruvísi fram við það og það upplifi sig sem einhverja staðalímynd geðsjúklings, með reytt hárið í spennitreyju. Raunin er einfaldlega sú að sú ímynd á við fæsta geðsjúklinga. Fólk getur glímt við hin ýmsu andlegu veikindi án þess að það sjáist nokkurn tímann utan á þeim. Samfélagið virðist þó alltaf tilbúið að halda utan um þá sem eru sjáanlega, líkamlega veikir en saka aðra um lygar eða aumingjaskap.

Geðsjúkdómar kallast það einfaldlega vegna þess að þeir eru einmitt það, sjúkdómar. Og er ekki rökrétt að á 21.öldinni, með nýjustu tækni og vísindum, að ríkja ætti fullkomið heilsujafnrétti, þ.a. er fullkomið jafnrétti meðal andlegra og líkamlegra sjúkdóma. Að fólk sé hvorki fordæmt fyrir andleg né líkamleg veikindi sín, að konur jafnt sem karlar og allir þar á milli eigi jafnan rétt og jöfn tækifæri á að sækja geðheilbrigðisþjónustu líkt og aðra heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag?

Að þessu öllu og mörgu öðru átti samfélagsmiðlabyltingin samtakanna GEÐSJÚK, #égerekkitabú, að stuðla og gerði það með rentu. Ótal fjöldi fólks tjáði sig á Twitter og Facebook og voru margir að opna sig opinberlega um sín veikindi í fyrsta skiptið. Þetta hrinti af stað bylgju af fjölmiðlaumfjöllunum, greinaskrifum og ákveðinni samkennd í íslensku þjóðfélagi. Þetta er ómetanlegt.

Við munum aldrei vinna bug á fordómunum nema með því að tjá okkur. Maðurinn sem félagsvera hefur ákveðnar grunnþarfir sem snúa að hans tilfinningalífi og ekki fundum við upp tungumálið að ástæðulausu. Með byltingu eins og #égerekkitabú og gagnvirku, skipulögðu starfi trúum við stofnendur GEÐSJÚK að fordómar í garð andlegra veikra einstaklinga munu heyra sögunni til innan nokkura ára. Við vonum þó að við getum haldið áfram að starfa í krafti fjöldans og að fólkið sem tók þátt í byltingunni verði virkara í baráttunni gegn fordómunum.

Eins og geimfarinn sagði, þetta var lítið skref fyrir manninn en risastórt skref fyrir mannkynið. Nú er komin tími til að setja andlega sjúkdóma á par við þá líkamlegu, hætta að einblína á hina fullkomnu sjálfsmynd á netinu og láta allt flakka – það góða og það slæma. Þannig eyðum við bannhelginni yfir geðsjúkdómum og þannig hættum við að vera tabú.

Silja Björk Björnsdóttir hefur verið áberandi talskona fyrir því að opna umræðu um geðsjúkdóma og geðheilbrigði. Hún opnaði nýverið heimasíðu en þar birtist þessi færsla fyrst.