Ástvinamissir, t.d. missir foreldris, barns, maka eða nákomins vinar getur átt sér stað hvenær sem er á lífsleiðinni en er algengari þegar fólk eldist. Eftir því sem fólk er eldra því fleiri ástvini hefur það yfirleitt kvatt úr þessum heimi. Sorg er sálfræðilegt viðbragð við ástvinamissi og ástvinamissir og sorg geta tekið á sig margvíslegar birtingarmyndir.

Sorg er eðlileg tilfinning. Þegar manneskja sem hefur lengi verið hluti af lífi okkar og við höfum átt náin tilfinningaleg tengsl við deyr, þurfum við að aðlagast miklum breytingum á lífi okkar. Þegar náið samband við aðra manneskju hefur varað árum saman mótar það samband sjálfsmynd okkar.

Mismunandi stig sorgar

Það er algeng hugmynd að sorgarferli eigi sér stað í stigum. Margar kenningar fjalla um sorgarstigin, yfirleitt frá þremur til fimm stigum. Sumir upplifa fyrst áfall eða dofa, síðan kemur tímabil depurðar og mikils söknuðar. Yfirleitt dregur úr afneitun, þrá, depurð og reiði eftir því sem fólk meðtekur andlátið. Lokastigið er alltaf einhvers konar úrlausn sorgarinnar eða aðlögun.

Styrkleiki og tímalengd sorgarferlisins fer eftir mörgum þáttum eins og persónugerð einstaklingsins, tengslum við þann látna og kringumstæðum andláts. Óvænt og brátt andlát eða andlát af slysförum getur valdið miklu áfalli. Eðlilegt sorgarferli getur tekið mánuði og jafnvel nokkur ár. Andlát lífsförunauts getur haft i för með sér upplifun á nálægð makans, eins og að finnast maður heyra rödd viðkomandi. Þetta er algengt og getur átt sér stað í rúmlega ár frá andláti.

Aftur á móti eru margir (uþb 50%) sem upplifa ekki mikið tilfinningalegt áfall og dofa, meðtaka missinn og aðlagast breyttum aðstæðum.  Yfirleitt upplifa þessir einstaklingar ekki fyrstu stigin, áfallið og depurðina.  Megin viðbrögð þessa hóps eru samþykki á andlátinu og endurhvarf til daglegs lífs.

Hvenær er sorg sálrænn vandi? 

Sorgarferlið er álitið vandamál ef það er of öflugt eða varir of lengi.  Sorgarviðbragð getur verið mjög öflugt og getur falið í sér mismunandi tímabil dapurleika, svefnleysis, þreytu, einbeitingarskorts og lystarleysis. U.þ.b 30% þeirra sem missa ástvin upplifa svona sterk sorgarviðbrögð í kjölfar andláts maka eða barns. Eftir mjög náið og langt samband getur það að vera ein/-n eftir verið áfall og mjög ógnvænleg tilhugsun. Fólk á það til að „festast“ í sorginni, sem er í raun það sem átt er við með hugtakinu „þungbær sorg“. Sorgin getur verið þungbær vegna aðstæðna andláts, t.d. ef andlát er óvænt, vegna slyss, sjálfsvígs eða eftir erfið og kvalarfull veikindi.

Hvenær og hvernig er þungbær sorg meðhöndluð?

Sorg er eðlilegt viðbragð við missi. Sorg er ekki sjúkdómur og þarfnast yfirleitt ekki lyfja- eða sálfræðimeðferðar. Meðhöndlun sorgar þarf að nálgast með varfærni. Það er ekki nauðsynlegt eða æskilegt að fjarlægja sorg, sem er hluti af eðlilegri tilfinningalegri aðlögun þegar ástvinur deyr. Sálfræðileg íhlutun er gagnleg þegar um langvarandi og þungbæra sorg er að ræða eða “Persistent Complex Bereavement Disorder.” Klínískar rannsóknar gefa til kynna að sálfræðileg íhlutun hafi hófleg en langvarandi jákvæð áhrif á þungbæra sorg. Hugræn atferlismeðferð (HAM), samtalsmeðferð, skammvinn sálgreining eða önnur gagnreind sálfræðimeðferð er notuð til að hjálpa einstaklingnum að auka virkni og hugsa um og skilja áhrif andlátsins. Sumir einstaklingar þarfnast aðstoðar við að vinna úr flóknum þáttum sambandsins við þann látna. Úrvinnsla eftirsjár getur verið mikilvæg. Til dæmis getur verið gagnlegt að endurskoða sársauka sem átti sér stað í sambandinu, fyrirgefa gamlar sakir, eftirsjá, reiði og sektarkennd.

Textann skrifaði Bryndís Einarsdóttir sálfræðingur hjá Heilsustöðinni, sálfræði- og ráðgjafaþjónustu. Ofanritað byggir á efni sem Dr. Lorne Sexton tók saman fyrir Kanadíska Sálfræðingafélagið

Heildartextann má finna hér.