Björg Einarsdóttir er 25 ára körfuboltakona sem hefur glímt við íþróttaátröskun. Fyrstu einkenni röskunar þessarar birtust um 16 ára aldur og lýstu sér sem mikil þráhyggja fyrir útliti og fitusöfnun, og sífelldum samanburði við aðrar stúlkur. Glansmyndir samfélagsmiðla höfðu einnig mikil og þá neikvæð áhrif á líkamsímyndina. Við 22 ára aldur náði þetta svo hámarki og byrjaði hún þá að framkalla uppköst og minnka umtalsvert matarinntöku.

Björg lýsir íþróttaátröskun sem alvarlegum sálrænum sjúkdómi, sem hrjáir fleiri en almennt er talið og felur mun meira í sér en einungis það að „kasta upp eða svelta sig.” Hún nefnir t.a.m. „að henni fylgi mikil vanlíðan og óöryggi, og maður verður heltekinn af þyngd, útliti og matarvenjum.” Þrýstingurinn sem íþróttafólk finnur fyrir hvað varðar staðalímyndir íþróttalíkamsvaxtar er einn af þeim þáttum sem ýtir undir átröskunina.

Björg bjó ein, svo auðvelt var fyrir hana að fela uppköstin og óheilbrigðar matarvenjur sínar fyrir öðrum, og setti hún því upp grímu og villti á sér heimildir um langan tíma. Fjölskyldan tók hins vegar eftir að henni leið illa og héldu sumir jafnvel að hún væri orðin þunglynd, en engum datt í hug að það sem amaði að væri íþróttaátröskun.

Segir Björg einnig „að þegar ég var búin að kasta reglulega upp í einhvern tíma, þá áttaði ég mig á því að ég væri búin að segja „síðasta skiptið” oftar en ég gat talið.” Gerði hún sér þá loks grein fyrir að þetta væri orðið óviðráðanlegt; hún þyrfti að leita sér hjálpar áður en allt færi á versta veg. „Náði ég því að viðurkenna vandamálið fyrir sjálfri mér, sem er stórt skref fram á við,” að hennar sögn. Treysti hún svo kærri frænku sinni fyrir þessu og í kjölfarið fann hún styrkinn til að segja fjölskyldu og vinum einnig frá þessu.

Björg leitaði til sálfræðings, sem hefur hjálpað henni mikið, en samkvæmt henni var fyrsti tíminn „hrikalega erfiður og féllu þar þó nokkur tár.” Sálfræðingurinn benti henni á margt í daglegu lífi sem hún gat gert til að ýta undir bata, t.a.m. að eyða glansmyndastúlkum úr augsýn sinni, einkum út af Instagram, sem ýta undir óhollan samanburð við líkamsímyndir sem hafa oft jafnvel verið lagfærðar með myndvinnslubúnaði. „Það var ákveðinn léttir að geta skoðað Instagram án þess að sjá hvernig hinar og þessar litu út, og þá var ég ekki að bera mig saman þær,” segir hún.

Björg fór einnig í hugræna atferlismeðferð og einlæga sjálfsskoðun, sem kenndi henni að hafa stjórn á ástandi sínu. Hún fékk heimavinnu eftir hvern tíma og aðgang að appinu Headspace, sem þjálfar hugann í núvitund, og mælir hún eindregið með því fyrir alla sem áhuga hafa á.

Segir Björg bataferlið ganga „mjög vel, þótt átröskunarröddin sé ávallt við eyrað.” Jól, páskar, afmælisveislur og þess háttar eru henni hvað erfiðust, en þá gerist átröskunarröddin sérstaklega hávær og minnir skömmótt á sykurinn og magnið sem hún hefur neytt. Hún líkir þessu við að hafa púka á annarri öxlinni, sem minnir hana sífellt á matarinntöku hennar og hreyfingu, og engil á hinni, sem talar púkann niður og minnir hana á að þetta sé í stakasta lagi. Hefur hún því haldist á beinu brautinni, þökk sé þessum ljúfa engli. Björg á líka vin í svipuðum aðstæðum, sem hún talar oft við þegar gangan gerist örðug, og segir það „mjög gott að geta talað við einhvern sem veit nákvæmlega hvernig manni líður.” Segir hún sérstaklega gott að fjölskyldan og vinirnir viti af þessu, svo hún hafi þau að tala við í stað þess að glíma ein við vanlíðan sína.

„Ég hef sett mér þá reglu að borða aldrei yfir mig, svo mér líði vel eftir máltíð,” segir Björg, þar sem átröskunarrödd hennar lætur frekar í sér heyra eftir stóra máltíð. Einnig reynir hún að halda sætindunum í hófi, þótt hún sé mikill sælkeri. Kærasti hennar er líka mikið fyrir hollan mat, svo matarinnkaup þeirra haldast í hollari kantinum.

Björg nefnir að hún hafi náð „að stöðva sig á mikilvægum tímapunkti, milli þess að vera á alvarlegu stigi og að lenda í miklum háska.” Að hennar mati bjargaði það henni „að viðurkenna fyrir sjálfri sér vandamálið og opna sig fyrir öðrum,” sem leiddi til þess að hún leitaði sér hjálpar. Fann hún fyrir mikilli skömm og vonbrigðum, áður en hún opnaði sig, en fann sjálfstraustið á nýjan leik. Hélt hún að hennar nánustu myndu finna svipaðar tilfinningar við að heyra fréttirnar, er hún trúði þeim fyrir þessu, en sú var ekki raunin; hún fékk fullan skilning og stuðning frá öllum. Ákvað hún því héðan í frá að vera hreinskilin við bæði sjálfa sig og aðra um þetta, því annars gæti hún ekki sigrast á þessu.

Ráð Bjargar til þeirra, sem eru í svipuðum aðstæðum, er „að láta einhvern aðstandenda vita og leita sér hjálpar; því fyrr, þess betra, þar sem maður missir fljótt tökin og þá er það oft orðið of seint!”