Undanfarna daga hafa netheimar logað vegna meintra ummæla forsætisráðherra um geðlyf og verkan þeirra. Var forsætisráðherrann gestur í stjórnmálafræðitíma við Verlzunarskóla Íslands og þegar talið barst að geðheilbrigðismálum átti hann að hafa teiknað upp mynd af tveimur blómum, öðru sem var visnað, og líkti því að nota geðlyf við það að vökva dautt blóm.

Uppi varð fótur og fit, skiljanlega, því það er með öllu óásættanlegt ef forstætisráðherra hefur þá skoðun að eins og að vökva dautt blóm, séu geðlyf tilgangslaus gerviþörf sem uppfylli aðeins einhverja óskhyggju. Forsætisráðherra neitar því staðfast að hafa nokkuð slíkt sagt og þó hann hafi ekki sjálfur farið í saumana á þessum ummælum hafa nemendur Verzlunarskólans og aðrir stuðningsmenn hans tekið upp fyrir honum hanskann og útskýrt að hér hafi aðeins verið um misskilning að ræða. Það er vel og frábært að sjá að forsætisráðherra situr ekki á svo úreltum skoðunum og fordómum.

Í rauninni hafði þessi skýringarmynd forseta af blómunum tveimur átt að snúa að rótum blómanna. Vildi forsætisráðherra þá sýna fram á það, réttilega, að til að laga geðheilbrigðisvanda þjóðarinnar þyrftum við alfarið að snúa okkur að rótum þess. Þá séu geðlyf endilega ekki lausnin og gætu mögulega verið partur af mun stærra vandamáli í þjóðfélaginu. Án þess að leggja hæstvirtum forsætisráðherra orð í munn er þetta núverandi skilningur undirritaðrar á þessu umdeilda atviki.

Vissulega er það rétt að Íslendingar neyta geðlyfja í töluvert meira magni en nágrannaþjóðir okkar og er það að mörgu leyti varhugavert. Það er meðal annars varhugavert vegna þess að mjög lítið er vitað um geðlyf, verkan þeirra og aukaverkanir. Mun minna fjármagni og tíma er eytt í rannsóknir á geðsjúkdómum, sambands erfða, uppeldis og aðstæðna í samhengi við geðheilsu og enn minni fjármunum er eytt í uppbyggingu á löngu úreltu geðheilbrigðiskerfi Íslendinga en ásættanlegt er. Það er bláköld staðreynd að íslenska heilbrigðiskerfið er gersamlega í molum, og það líka bókstaflega, þar sem húsakynni þess eru að mygla í sundur og er það enn kaldari raunveruleiki að þegar skorið er á heilbrigðisþjónustu er fyrst skorið á geðsjúklingana.

Sjúkdómar okkar eru ekki taldir nógu alvarlegir. Það er erfiðara að mæla þá, greina þá, sanna þá. Það er auðveldara að gera sér upp andleg veikindi en það er að gera sér upp t.d. krabbamein eða beinbrot. Það þýðir hinsvegar ekki að við séum ekki að deyja. Það þýðir ekki að sjálfsvígum fari fækkandi, að geðsjúklingar glími ekki við lamandi sjúkdóma, ótta, félagsfælni, kvíða og sjálfsmorðshugsanir. Það þýðir ekki að það eigi ekki að taka okkur alvarlega.

Það er rót vandans. Hún liggur ekki grafinn í vanköntum heilbrigðiskerfisins, manneklu og blaðri stjórnmálamanna á Alþingi. Rót vandans liggur hjá okkur sjálfum, hjá okkur hverju og einu og hjá okkur sem samfélagi.

Rót vandans er einfaldlega sú að þrátt fyrir að okkur Íslendingum hafi verulega farið fram í þessum málaflokki, erum við ennþá gegnsýrð af fordómum og skilningsleysi gagnvart geðsjúkum, sjúkdómsgreiningum þeirra, lyfjanotkun og innlögnum á geðdeildir.

Forsenda heilbrigðs samfélags er sú að geta tekið alla menn í sátt, hvort sem þeir eru dökkir eða hvítir á hörund, hvort sem þeir heita Jón eða Gunna, ganga í bomsum eða sandölum, hvort sem þeir glíma við geðsjúkdóma eða ekki. Við munum aldrei ná áttum eða neinum framförum svo framarlega sem þessi hugsanaháttur er enn viðloðandi. Á meðan geðsjúkdómar eru ekki litnir jafn alvarlegum augum og líkamlegir. Á meðan andleg heilsa er ekki metin á sama grundvelli og líkamleg, á meðan allir keppast við að taka þyngstu bekkpressurnar en engum dettur í hug að ræða opinskátt um líðan sína.

Á meðan samfélagið skammar enn karlmenn og kallar þá kerlingar og aumingja þegar þeir sýna á sér höggstað. Á meðan við segjum ungum strákum ennþá að hætta þessu væli og kennum litlum krökkum að grenja ekki nema að þau hafi meitt sig líkamlega. Á meðan við stundum það að geyma geðsjúklinga á mygluðum geðdeildum þar sem lyfjum er dælt í þá hægri vinstri, enginn sálfræðingur eða sérfræðingur er starfandi á svæðinu og fólki er gagngert neitað um innlögn nema það sé með blæðandi sár á úlnliðum, froðufellandi pilluforðanum með snöruna um hálsinn. Á meðan fólk burðast enn um með lamandi skömmina, fær ekki viðunandi hjálp og endar undir grænni torfu langt fyrir aldur fram – á meðan samfélagið metur andleg veikindi minna alvarleg en líkamleg – komumst við ekkert áleiðis í baráttunni.

Sigurinn telst ekki unninn fyrr en það verður jafn eðlilegt að tala um andlega heilsu opinberlega og fyrir allra augum og það þykir að tala um líkamlega heilsu. Sigurinn verður ekki unninn fyrr en feluleikurinn hættir, fyrr en heilsujafnrétti ríkir fyrir alla óháð efnahag, þjóðerni, kyni og þjóðfélagsstöðu.

Um leið og samfélagið allt meðtekur þann sannleik að andleg heilsa er forsenda heilbrigðs verkandi samfélags, skiptir það engu máli hvort það virki fyrir þig að taka lyfin þín samviskusamlega á morgnanna en það henti mér betur að stunda hugræna atferlismeðferð. Þá skiptir það engu máli með hverju við vökvum blessað blómið, því það verður lifandi, eilíft og blómstrar.

 

Höfundur: Silja Björk Björnsdóttir