Ég finn það hellast yfir mig. Hjartað byrjar að hamast og ég byrja að verða kaldsveitt. ,,Æji nei, ekki í dag af öllum dögum..” hugsa ég. Mér finnst sem æðarnar byrji að þrengjast og öndunin verður örari. Allt blóðið dettur niður í fæturna og sjónin byrjar að verða skrýtin. Mínúturnar verða að klukkustundum og það er eins og allt gerist í slow motion. Ég leggst niður á kalt gólfið og reyni að ná tökum á andardrættinum en án árangurs. Kærastinn minn skilur ekki hvað er í gangi og ég á erfitt með að finna orð til þess að lýsa þessu og hvað þá að mynda setningar. Hann náði loks að sannfæra mig um að standa upp og setjast í sófann. Ég veit ekki hvað ég lá lengi á gólfinu en ég man bara að það var gott að liggja þar því það var kalt og hart. Ég gat ekki hugsað um annað en hvað það var erfitt að að anda, hvað æðarnar væru þröngar og blóðið væri allt í fótunum á mér.

Þetta kvíðakast stóð alls ekki lengi, aðeins í um 20 mínútur. En þessar 20 mínútur voru sem heil eilífð. Ég hef þrisvar upplifað kvíðaköst. Þetta er svo óþægileg tilfinning og gerir svo sannarlega ekki boð á undan sér. Þetta kvíðakast heltist yfir mig daginn sem ég var að flytja inn með kærastanum mínum. Það var ekki eins og ég hefði kviðið því en samt fékk ég þetta kast akkúrat þennan dag.