Silja Björk Björnsdóttir hélt þennan magnaða fyrirlestur á TEDxReykjavík í maí árið 2014. Sumum kann að finnast það ótrúlegt, eins og henni sjálfri, að henni hafi tekist að flytja þetta persónulega erindi fyrir fullum sal svo stuttu eftir að hún reyndi að fremja sjálfsmorð og upplifði versta myrkur sem manneskjan getur kynnst, sjálfsvígshugsunum, en Silja Björk sá ljósið í enda ganganna og ljósið lýsti upp heim gerilsneyddan fordómum í garð geðsjúklinga.

Síðan Silja Björk greindist með alvarlegt þunglyndi árið 2012 hefur hún staðið ötul í baráttunni gegn geðfordómum. Hún skrifaði sína fyrstu grein „Þunglyndi er ekki sjúkdómur“ í janúar 2013 og birtist greinin á vefriti vinkonuhópsins, Freyjurnar. Greinin fór eins og eldur um sinu á netheimum og ekki leið á löngu en hún hafði verið birt á öllum helstu miðlum landsins. Silja Björk hélt baráttunni áfram og hélt forvarnarfyrirlestra í grunnskólum Akureyrar, heimabæs síns. Þó forvarnarstarfið og skrifin hafi verið mikilvægur þáttur í batarferli Silju Bjarkar, var þó þunglyndið ekki alveg horfið og sumarið 2013 reyndi Silja Björk að fremja sjálfsmorð og endaði í kjölfarið upp á geðdeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

Þegar af geðdeildinni var komið sá Silja Björk myndrænt fyrir sér gatnamót, ákveðin ákvarðanartaka þurtfi að eiga sér stað – nú er að duga eða drepast. Ætlaði hún að láta allt sem á undan hafði gengið gleymast, leyfa þunglyndinu að eiga sig alla og lifa lífinu sem sjúklingur eða ætlaði hún að taka upp þráðinn og halda áfram í baráttunni og forvarnarstarfinu? Getur maður virkilega tekið svona slæma lífsreynslu og gert eitthvað gott úr henni?

Henni bauðst þetta ótrúlega tækifæri að fá að halda fyrirlestur á TEDxReykjavík og skilaði það sér svo sannarlega því erindið hlaut einróma lof og náði til fólks á öllum aldri. Silja Björk hóf aftur sjálfstæða vinnu í forvarnarstarfinu og á haustmánuðum 2015 stofnaði hún, ásamt Töru Tjörvadóttur og Bryndísi Gunnlaugsdóttur, Facebook-hópinn GEÐSJÚK og í hrinti í kjölfarið af stað vitundarvakningunni og samfélagsmiðlaherferðinni #égerekkitabú.

Kjarninn í öllu því sem Silja Björk fjallar um er einmitt það að fólk sem glímir við geðsjúkdóma, og það eru ansi margir hér á Íslandi, eru ekki tabú. Geðsjúklingur er ekki skammaryrði og fólk á ekki að skammast sín eða líða eins og aumingjar sé það að glíma við geðræn veikindi. Í rauninni, eins og Silja Björk kemur inn á í Ted-erindinu sínu The Taboo of Depression, ættum við að koma fram við andlega sjúkdóma á sama meiði og við gerum líkamlega.

Í kringum stofnun GEÐSJÚK og #égerekkitabú varð orðið heilsujafnrétti til. Það á vel við í íslensku samfélagi í dag, þar sem hart er barist í allar áttir að öllum líði vel, sama af hvaða kyni, kynþætti, útliti, þyngd eða stöðu í samfélaginu viðkomandi er og gegnir. Hví ekki þá að sýna fólki jafnrétti og koma eins fram við þá sem eru andlega veikir og þá sem eru veikir líkamlega?

—————-

Silja Björk er 25 ára Akureyringur í húð og hár sem finnur sig vel í borgarlífinu í Reykjavík. Hún er greind með klínískt þunglyndi og kvíða. Haustið 2016 var hún ein fjögura viðmælenda í sjónvarpsþáttunum Bara geðveik á Stöð 2 og samhliða því vann hún að sinni fyrstu bók og stefnir á að opna sína eigin vefsíðu á næstu misserum. Silja Björk verður fastur penni hér hjá okkur á Geðfræðsla.is og er von á góðu, fjölbreyttu efni frá þessari ungu, upprennandi konu.