Jónína Sigurðardóttir, nemi á 3.ári í uppeldis og menntunarfræði

Jónína Sigurðardóttir, nemi á 3.ári í uppeldis og menntunarfræði

Versta tilfinning sem ég hef fundið fyrir er þegar ég hef orðið hrædd við sjálfa mig. Það er að segja þegar sjálfsmorðshugleiðingar ná tökum á huga mínum, ég hef viljað deyja en innst inni hef ég ekki viljað það. Þar af leiðandi hef ég orðið hrædd við sjálfa mig, hrædd um að ég muni taka skrefið og ganga lengra en ég hef ætlað mér að gera.

Þegar ég var 17 ára var ég greind þunglynd, ég skildi ekki hvað það merkti en þá hafði ég verið veik í um það bil 4 ár. Ég sá fyrir mér að það líf sem ég hafði séð fyrir mér fyrir sjálfa mig hverfa, ég hélt að nú yrði ég sett á stofnun og að allir myndu sjá að ég væri eitthvað öðruvísi. Svo var ekki, það tók enginn eftir því að það væri eitthvað breytt þó svo að mér liði allt öðruvísi. Það var ekki fyrr en mun seinna að mér fannst það vera léttir að vera komin með staðfestingu á því hvað væri að mér því mér fannst svo erfitt að vera greind með geðsjúkdóm. Ég öfunda ungt fólk í dag vegna þess hve opin umræðan um geðsjúkdóma er orðin. Með opinni umræðu minnkar hræðsla. Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélaginu um geðsjúkdóma en það má alltaf gera betur.

Lengi vel gerði ég mér ekki grein fyrir því að ég væri veik. Ég gerði ráð fyrir því að ég passaði inn í þá ríkjandi staðalmynd af unglingum og að þetta væru eðlilegar geðsveiflur. Ég hélt að það væri hluti af því að vera unglingur að líða svona illa og að þetta væri bara tímabil sem ég væri að ganga í gegnum því samfélagið sagði mér það. Hefði ég fengið almennilega fræðslu um geðsjúkdóma og fengið að heyra að þetta væri ekki eitthvað sem þyrfti að skammast sín fyrir þá er ég viss um að ég hefði ekki orðið jafn veik og ég varð. Líf mitt breyttist þegar ég fór að bera virðingu fyrir tilfinningum mínum. Ég átti það til að reyna að finna ástæður á bak við vanlíðanina í stað þess að samþykkja það hvernig mér liði. Um leið og ég fór að samþykkja tilfinningar mínar varð meiri ró í huga mér. Ég hætti þá að berjast við sjálfa mig um að mér ætti ekki að líða illa því það hefði ekkert slæmt komið fyrir og gat því eytt meiri orku í að ná bata.

Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að það er von, von um að geta liðið betur. Með aðstoð fagaðila og stuðningi frá sínum nánustu má gera kraftaverk. Ég til að mynda hef verið lyfjalaus í um það bil tvö ár og hef ekki sótt tíma hjá sálfræðingi í tæpt ár. Ég verð þó að viðurkenna að þegar ég finn fyrir því sem geta talist eðlilegar lægðir í líðan þá verð ég hrædd um að festast aftur í vanlíðaninni. Þessi hræðsla á það til að yfirtaka mig og gerir hún það oft að verkum að ég næ ekki að greina á milli þess hvort þessar lægðir séu stutt tímabil eða hvort þær muni taka yfir mig.

Mikilvægt er að fólk sem glímir við geðsjúkdóma læri að þekkja sjálft sig og ná því mögulega að koma í veg fyrir stærstu sveiflurnar. Það eru alltaf ákveðin merki sem gera vart við sig í minni hegðun sem ég lít á sem viðvörun. Þessi merki geta verið bæði líkamleg og andleg, dæmi um líkamleg viðbrögð eru ógleði og lítil matarlyst. Dæmin um andleg merki eru þó fleiri, eitt helsta merkið hjá mér er að ég hef ekki getu í að bursta í mér tennurnar. Mörgum finnst þetta eflaust skrítið og öðrum jafnvel ógeðslegt en af einhverjum ástæðum þá verður þetta mér einstaklega erfitt. Það er mjög auðvelt að blekkja sjálfan sig og telja sjálfum sér trú um að allt sé í góðu lagi en innst inni gerir maður sér grein fyrir því að svo er ekki. Ég hef alltaf talað um þetta sem grímu sem ég set upp sem blekkir bæði mig og fólkið í kringum mig. Það er skelfilegt þegar gríman fellur, þegar maður nær ekki lengur að blekkja því vanlíðanin er orðin svo mikil. Þá er eins og lífið hrynji, maður er búinn að reyna svo mikið og svo lengi að vera sterkur og maður heldur að maður sé það en raunin er önnur. Þegar ég hef lent í þessu verður bataferlið alltaf lengra og erfiðara.

Ég er mjög heppin að hafa gott stuðningsnet í kringum mig, ég á frábæra foreldra, yndisleg systkini og mjög góða vini sem hafa stutt mig og aðstoðað í gegnum mislöng og erfið tímabil. Þau hafa aldrei gefist upp á mér og hvatt mig áfram til þess að halda áfram að berjast til þess að komast í gegnum veikindin. Ég er einnig mjög heppin að hafa getað notið fjárhagslegs stuðnings frá mínum nánustu þar sem það er nánast ógerlegt að standa einn og ungur undir þeim kostnaði sem felst í samtals- og lyfjameðferð hjá fagaðilum. Sjálf hef ég prófað og verið á þó nokkrum lyfjum sem hafa haft misjöfn áhrif á mig, bæði góð og slæm. Að mínu mati er það samblanda af lyfja- og samtalsmeðferð sem er lykillinn að bata.

Staðreyndin er sú að þunglyndi er alvarlegur sjúkdómur. Með breyttri orðræðu mætti maður halda að þunglyndi væri ekki jafn alvarlegt og það er í raun og veru. Mikilvægast er þó að vita að það er von og að það skiptir máli að leita sér hjálpar. Með aukinni fræðslu er vonandi hægt að útrýma hræðslu, bæði gagnvart því að leita sér hjálpar og hræðslu gagnvart geðsjúkdómum yfir höfuð. Það er hægt að líða betur en það er ekki þar með sagt að manni líði alltaf vel, það eiga allir sína góðu og slæmu daga og það sama á við um þá sem glíma við þunglyndi.

Greinin birtist fyrst á Visir.is 10. október 2016 sem hluti af greinaskriftaátaki Hugrúnar í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10.október.